21.6.2009 | 12:00
Í minningu fallinna eineltisþolenda.
Ég er lúmskari en nokkur trúir og veit hvernig ég næ bestum árangri hvar sem er, hvenær sem er, hvernig ég næri mig best.
Ég þarf alltaf meira og meira af sársauka í kring um mig, til að fylla mig af þessari dásamlegu tilfinningu sem fer um mig þegar ég sé sársaukann og heyri sársaukann í fórnarlömbunum mínum.
Ég veit ég á ekki að gera þetta en þetta gefur mér ótrúlegt vald yfir vinum mínum og fórnarlömbum.
Það er dásamlegt að kúga og ógna og þó svo að ég sé staðinn að verki þá skiptir það ekki svo miklu máli.
Ég þarf kannski að biðja fyrirgefningar og hlusta á tiltal en um leið og ég biðst fyrirgefningar sendi ég fórnarlambinu mínu svipinn sem það þekkir svo vel og brýt það enn betur niður svo fer ég út og held áfram.
Lífið er dásamlegt og stútfullt af fórnarlömbum.
Ég er eineltisgerandi, nærist á ofbeldi.
Í dag er nákvæmlega 1 ár síðan sonur minn dó, síðan baráttan hófst í nafni Jerico.
Mig langar til að segja ykkur frá því hvernig nafnið á Samtökum foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda, Liðsmenn Jerico er tilkomið.
Jerico var notendanafn Lárusar sonar míns á netinu.
Það síðasta sem hann hafði fyrir augunum áður en hann tók líf sitt þann 21. júní síðasta sumar var uppi á skjánum á tölvunni hans undir notandanafni hans, Jerico.
Ljót og niðurlægjandi svör fólks við spurningu sem hann setti inn á spjallsíðu.
Það síðasta sem við vitum er að hann setti inn ósk klukkan tæplega tvö um nóttina þar sem hann bað fólk að hætta að kommenta á stafsetninguna sína en gefa sér frekar ráð.
Svör fólksins til Jerico voru það sem blasti við mér daginn eftir atburðinn. Svör sem ég gleymi aldrei, tilfinning sem ég gleymi aldrei. Þetta var það síðasta sem Lárus sat við og las áður en hann tók líf sitt. Þetta hefur sært okkur meira en orð fá lýst.
Kaldhæðnin gat ekki verið meiri. Drengur sem þurfti að þola ofbeldi í sinni ljótu mynd í skóla, ofbeldi sem braut hans sjálfsmynd í mola og fylgdi honum eins og svartur skuggi allt hans líf og felldi hann að lokum.
Það sem gerðist svo í kjölfarið gaf mér styrk og það var að á þessari sömu spjallsíðu var opnuð síða þar sem fólk gat heiðrað og minnst Jerico.
Þangað inn fór ég oft á dag næstu daga og vikur til að sækja styrk því þar skrifaði fjöldinn allur af fólki þá mestu fegurð sem ég þurfti á að halda.
Í hans nafni starfa Liðsmenn Jerico, Samtök foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda.
Fyrir alla þá sem þurfa að þjást vegna eineltisofbeldis og skilningsleysis.
Með þær skelfilegu afleiðingar sem ég held að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir, hversu mikil heilsufarsleg áhrif það hefur í för með sér fyrir þá allt þeirra líf, eða fyrir tengslum eineltis og sjálfsvíga.
Hvernig afleiðingarnar leggjast á alla fjölskylduna.
Umræðan um afleiðingar eineltisofbeldis hefur opnast, fræðsla og upplýsingar hafa aukist - Fordómar eru á undanhaldi.
Netsamfélagið er órofa hluti af samfélaginu, við þurfum öll að gera okkur grein fyrir því að það er veruleiki Íslands og það er líka vegna þess sem við erum í þessari baráttu núna.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Fólk er farið að átta sig á að þolendur eineltisofbeldis eru ekki aumingjar heldur er verið að gera þá að aumingjum.
Kynnt var hugmynd 16.06.09 að sérsveit/fagteymi á fundi hjá menntamálaráðuneyti með ráðuneytum, stofnunum, samtökum og félögum allsstaðar að úr íslensku samfélagi.
Fagteymi sem verður að hafa fullt sjálfstæði í vinnubrögðum og með hvaða hætti það velur að vinna í málum enda sérhvert mál sérstakt og útheimtir þar af leiðandi mismunandi útfærslur. (Sjá nánar inni á jerico.is)
Ég vil sjá að í allri uppeldismenntun sé eineltisfræðsla í grunnnámi skylduáfangi.
Ég vil sjá að Barnaverndarnefndir um allt land fái verkfæri til að vinna með gerendur í eineltismálum og fjölskyldur þeirra, að Barnaverndarnefndir fái tilkynningar um gerendur og fjölskyldur þeirra til að vinna með.
Gerendurnir eru vandamálið og það þarf að hjálpa þeim að vinna á sínum vanda.
Þetta tel ég vera forvörn.
Fullorðnir þolendur eineltisofbeldis eiga sér engan málsvara. Það er enginn sem tekur að sér einstakt mál sem berst til þeirra stofnana sem fólki er þó bent á að snúa sér með úrlausn.
Það batnar ekki þegar þolandi telur í sig kjark til að tilkynna einelti sem hann verður fyrir og fær það svart á hvítu fyrir framan sig að úrlausnaraðilinn sem hann er sendur til kemur til með að taka líka að sér að verja gerandann.
Hvert er réttlætið þar? Hvar eru mannréttindin þá?
Er hægt að niðurlægja fólk eitthvað frekar? Já með því að sannfæra þolendurna um að þeir eigi ekki möguleika á að vinna málið til þess sé sönnunarbirgði þeirra of mikil.
Skiptu frekar um vinnustað eða láttu þetta yfir þig ganga.
Ég bara skil ekki hvernig fólk getur þagað yfir einelti sem það verður vitni að, verður fyrir sjálft eða börnin þeirra. Ég bara skil það ekki hvernig fólk getur haft það á samviskunni.
Talið, látið vita.
Einelti drepur.
Athugasemdir
Jónína Dúadóttir, 22.6.2009 kl. 06:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.