Viltu bjóða mér í hjarta þitt.

DSC01754

Liðsmenn Jerico eru eins árs í dag og ég óska ykkur til hamingju með daginn.

Við þurfum öll á trú, von og kærleika að halda. Ég trúði því í hjarta mínu að starf Liðsmanna Jerico skipti máli, ég trúði því að hægt væri að ná fram breytingum í þjóðfélaginu varðandi viðhorf til eineltis - Ég trúði því að fólk vildi hleypa okkur inn í hjarta sitt.

Í dag er ég búin að sjá hvað er hægt að gera ef fólk hefur trúna.

Vonir í brjósti okkur lifna og deyja með öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur í lífinu. Vonin sem lifnaði í brjósti mér með lífi Liðsmanna Jerico lifnaði þegar önnur von dó. Von um að hægt væri að veita þolendum eineltisofbeldis og aðstandendum þeirra meiri hjálp, aukinn skilning, sanngjarnari meðferð og viðurkenningu á vandanum sem þeir eiga rétt á. Til að vinna að því að koma í veg fyrir að einelti fái að þrífast, efla forvarnirnar og til að hægt sé að virkja þá þjónustu betur sem í boði er hjá félagsþjónustu, heilbrigðis og menntamálastofnunum, upplýsa og fræða.

Einelti er ekki einkamál gerenda og þolenda. Við berum öll ábyrgð. Við þurfum að tala um hlutina og láta vita. Ég trúi á ykkur.

Með baráttu okkar, upplýsingum, fræðslu og leiðsögn er víða hafin löngu tímabær vinna í eineltismálum. Í ráðuneytum, bæjarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum Það gengur bara allt svo hægt.

Það þarf stöðugt að vera að minna á tilganginn með vinnunni. Um að stuðla að forvörnum í eineltismálum fyrir framtíðina til að koma í veg fyrir brot á mannréttindum og bætt geðheilbrigði. Við eigum öll sama rétt á að líða vel og vera hamingjusöm eins og við erum.

Við eigum öll að geta verið örugg og geta treyst því að börnin okkar séu í öruggu umhverfi, líf okkar snýst um þá sem við elskum.

Það á ekki að vera þannig að þegar aðstandendur eineltisþola og fullorðið fólk leiti réttar síns að þá gangi það á veggi. Að þegar fólk sem er ráðþrota, að brotna undan álaginu sem fylgir sorginni, ráðaleysinu og höfnuninni og þarf virkilega á því að halda að heyra uppörvandi og styrkjandi orð þá sé því vísað eitthvað annað. Að fólk þurfi að komast að því að það er engin málsvari í öllu þjóðfélaginu sem tekur að sér eitt einstakt mál, merkt einelti eða eineltisofbeldi. Ekki barnaverndarsamtök, ekki Vinnueftirlitið - engin. Samt eru til lög og reglugerðir varðandi skóla og vinnustaði.

Það á ekki að vera þannig að eineltisofbeldismál falli hvergi undir embætti eða stofnanir.

Það eru skráð 38 sjálfsvíg á síðasta ári, að meðaltali falla 3-4 einstaklingar fyrir eigin hendi á mánuði. Það er umhugsunarvert og ég vildi svo gjarnan vita hversu margir þeirra glímdu við afleiðingar eineltis og létust vegna þeirra.

Það er hörkuvinna sem þarf að fara af stað strax þegar einelti uppgötvast. Í þá vinnu þarf dugnað og góða samvinnu allra einstaklinga sem að málinu koma. En tilfinningin sem fylgir því að ná að uppræta einelti er dásamleg. Hana þekki ég jafnvel og tilfinninguna þegar það tekst ekki. Það er mikið gleðiefni að fá fréttir og pósta frá starfsmönnum skóla og fyrirtækja sem eru að láta vita af eineltisforvarnarvinnu og uppstokkun sem er að fara í gang í eineltismálum og forvörnum. Þetta segir okkur að það er vitundarvakning í þjóðfélaginu og að það er fullt af fólki sem að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að snúa við blaðinu.

Það vill enginn vera bestur í eineltisfeluleik, verðlaunin eru ömurleg.

Mat á einelti sem upp kemur á ekki að vera geðþóttamat hverju sinni það á að fylgjast með því af alvöru hvort verið sé að fara eftir lögum, reglum og reglugerðum. Á meðan hlutirnir fá að vera svona af hálfu stjórnvalda og í samfélaginu óáreitt, þrífst víða eineltisofbeldi og virðingarleysi gagnvart þolendum.

Það vill engin að einelti þrífist hjá sér, á sínum stað og það vill engin láta minnast sín sem ábyrgðar- og getulauss stjórnanda í afneitun sem brást þegar á þurfti að halda. Hugrekki er að bregðast við og láta verkin tala.

Sársaukinn sem fylgir þolendum eineltis getur varað allt lífið og er gjörólíkur þeim sársauka sem fylgir því að detta og hrufla sig eða að fá marblett.

Við getum verið þakklát fyrir þá vakningu sem hefur orðið í samfélaginu á einu ári varðandi eineltismál.Við getum líka verið þakklát fyrir þá umfjöllun sem við fáum, þó að hún sé afskaplega lítil. Eineltismál hafa þótt óspennandi málaflokkur og áhuginn hefur verið mjög takmarkaður. Það hafa fáir viljað af okkur vita fyrr en á þurfa að halda.

En það góða er að þetta er að breytast. Það hefur stigið fram fólk og það er að stíga fram fólk sem getur unnið að breytingum og vill stuðla að breytingum.

 

 DSC01752      DSC01753


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingrímur Helgason

Glæzt færzla.

Steingrímur Helgason, 6.10.2009 kl. 23:24

2 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 7.10.2009 kl. 06:39

3 identicon

Til hamingju til okkar allra með þennan áfanga

Ásdís Emilía Björgvinsdóttir (IP-tala skráð) 7.10.2009 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband