Ljós í myrkri.

Ljós í myrkri.

Mín leið til að umvefja ykkur sem þurfið á því að halda með ást og kærleik, skilningi og umburðarlyndi. Nær kemst ég ekki en ég verð að snerta við ykkur.

Ég veit að margir eiga um sárt að binda og sjá jafnvel ekkert nema tilgangsleysið og svartnættið fram undan.

Við ykkur vil ég segja; Það birtir alltaf upp um síðir. Við eigum alltaf eitthvað að þakka fyrir. Það er kannski ekki auðvelt að trúa því í dag en þú verður að trúa því, þín vegna.

Það er ekkert sem skiptir meira máli í lífinu en þú - þitt líf.

Þú átt bara eitt líf og þess skaltu gæta. Þegar okkur líður hvað verst og við sjáum engan tilgang með lífinu er gott að minna sig á það að þú átt fjölskyldu og vini sem elska þig og vilja ekki að neitt slæmt hendi þig. Alveg sama hversu illa þér líður núna og þér finnist allt lítils virði eða jafnvel ekki skipta neinu máli, það skiptir máli. Þín fjölskylda, þínir vinir, hafa áhyggjur af þér, hafa áhyggjur af því hvernig þér líður - þú skiptir fólk máli.

Jafnvel þó að allar leiðir virðist lokaðar, að maður geti talið  sér trú um að búið sé að brjóta allar brýr að baki, engum þyki vænt um mann, að þú sért bara til ama og það létti bara á fólki að losna við þig, þá er alltaf ljós einhver staðar fram undan, það þarf bara að koma auga það.

Það er alveg sama hvað á gengur í lífinu við lærum af því öllu og styrkjumst, verðum skilningsríkari og reyndari auk þess að hafa meira að gefa öðrum, það er tilgangurinn.

Það er einhver tilgangur með öllu sem gerist í lífinu. Við sjáum það kannski ekki í dag en ef til vill á morgun eða hinn. Við lærum til að hjálpa öðrum. Til þess að þú getir hjálpað öðrum verður þú að lifa af núna. Ég bið þig um að þiggja alla þá hjálp sem þér býðst, ekki gefast upp. Ef þú ert í eða við svartnættisholið, komdu þér þá í burtu frá því strax, fáðu hjálp, lifðu.

Það er alveg sama hversu erfið okkar reynsla er, þín bíður eitthvað stórkostlegt.

Það kemur alltaf góður tími á móti slæmum tíma. Þessu verður þú að trúa.

Ég þekki það á eigin skinni að missa allt. Ég kynntist því fyrir 15 árum síðan. Fór í gegnum efnislegt og tilfinningalegt gjaldþrot. Skilnað, missti nánast allt sem ég átti nema syni mína tvo, fjölskylduna mína og skuldirnar.

Ég stóð uppi peningalaus, atvinnulaus, húsnæðislaus og bíllaus. Andlegt flak. Þá komst ég að því að það er erfiðara að fyrirgefa sjálfum sér fyrir sín mistök en fyrir aðra, sem mistök mín bitnuðu á að fyrirgefa mér.

Með mannorðið í hættu, þunglyndi, kvíða og óvissu í farteskinu tók við nýr kafli í lífi mínu og það birti upp.  Það birtir alltaf upp.

Eftir á að hyggja þá sé ég hvað lífsviljinn skiptir miklu máli. Við megum ekki glata honum eða sjálfvirðingunni. Við þurfum að halda áfram. Það eru aðrir sem mega ekki við því að við gefumst upp.

Ef við gefumst upp skiljum við eftir okkur ólýsanlegan sársauka, sársauka sem er svo sár, sársauka sem verður sárari og sárari. ótal ósvaraðra spurninga, sjálfsásökun, sektarkennd og óendanlega mikilli sorg og söknuður.

Þau okkar sem hafa orðið fyrir efnislegu og/eða tilfinningalegu gjaldþroti og skakkaföllum á lífsleiðinni skiptast í tvo flokka; það eru þeir sem reyna að gera það besta úr því sem komið er, sættast og aðlagast breytingunni, byrja upp á nýtt.

Eða þeir sem festast í sárum biturleika og reiði út í allt og alla. Komast ekki út úr því liðna sem ekkert getur breytt nema við sjálf með því að halda áfram, taka okkur taki. Til þess þiggjum við öll þá hjálp sem býðst. Við verðum, af því að lífið heldur áfram með öllum sínum kostum og göllum.

Við þurfum að horfa á kostina, það sem hefur gefið lífinu gildi.

Í dag þakka ég fyrir að eiga son, maka og fjölskyldu sem ég elska út af lífinu og vini sem er mér ómetanlegt. Ég er á lífi og ég þakka fyrir það. Það hefði verið svo auðvelt fyrir mig þegar eldri sonur minn tók líf sitt að leggjast í kör og sjálfsvorkunn. Svo mikill er sársaukinn við að missa þann sem maður elskar. En ég ætla að berjast, ég berst fyrir auknum skilningi á þeim skelfilega sjúkdómi sem þunglyndi er og afleiðingum þess.

Ég bið til guðs af öllu mínu hjarta og allri minni sál að ljós lífsins nái að skína sem skærast inn í hjörtu allra og að umhyggja og kærleikur umvefji hverja þá sál sem kvelst einmana í einangrun sinni.

Það er til hjálp, taktu við henni, þiggðu hana og láttu ljós þitt skína. Berstu með mér fyrir betra lífi og hjálpaðu öðrum sem eiga bágt.

Ég veit að þú getur það. Það eru bjartari tímar framundan hjá okkur öllum, við verðum bara að vera þolinmóð og finna út með sjálfum okkar hvert okkar starf er með reynslunni sem við höfum öðlast og öllu því sem við höfum upplifað.

Við ykkur sem eruð í sömu sorglegu sporum og ég og mín fjölskylda. Ég finn svo til með ykkur og veit hversu erfitt þið eigið. Ekki tapa trúnni á lífið. Það koma aftur góðir tímar hjá okkur. Allar góðar minningar og hugsanir er ekki hægt að taka frá okkur, njótum þeirra.

Kveikjum á kertum á hverjum degi og minnumst látinna ástvina í bæn um að nú líði þeim betur, að þeir séu lausir við það sem þá þjakaði og hrjáði og um leið skulum við  þakka fyrir þá og það sem við eigum. Það hjálpar okkur að lifa af.

Þið eruð öll í mínum bænum, þið skiptið mig máli.

 

Liðsmaður Jerico

Ingibjörg Helga Baldursdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónína Dúadóttir

Jónína Dúadóttir, 13.11.2008 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband