Í skugga áfalla

Ég veit að margir eiga um sárt að binda og sjá jafnvel ekkert nema tilgangsleysið og svartnættið fram undan.
Við ykkur vil ég segja; Það birtir upp um síðir. Við eigum alltaf eitthvað til að þakka fyrir. Það er kannski ekki auðvelt að trúa því í dag en kannski á morgun.
Þú verður að trúa því, þín vegna. Við eigum bara eitt líf og þess verðum við að gæta.
Það er ekkert sem skiptir meira máli í lífinu en þú - þitt líf. Lífsviljinn er skærasta vopnið. Við megum ekki glata því eða sjálfvirðingunni.
Við þurfum að halda áfram. Það eru aðrir sem mega ekki við því að við gefumst upp.

Í þessu felst engin blekking þetta þýðir að við höldum í vonina. Þegar að við töpum voninni er stundum ekkert eftir nema bara tómarúm inni í okkur og óendanlega djúp sorg eða reiði, biturð og hatur.

Ég hef verið á báðum stöðum tilfinningarlega og má ég þá heldur biðja um sorgina og tómleikann þangað til hægt er að beisla neikvæðu orkuna skynsamlega eins og svo ótal margir hafa gert að undanförnu fyrir hagsmunum annarra með góðum árangri. Neikvæða orkan í sinni verstu mynd, sem svo erfitt getur verið að komast út úr er það mest eyðileggjandi afl sem til er fyrir mann sjálfan og þá sem eru í kring.

Ég átti von, kraft, kjark og tvo litla stráka þegar ég tapaði öllum mínum verandlegu eigum hér um árið og byrjaði upp á nýtt. Það þarf engin að halda að það hafi verið auðvelt eða létt en það hafðist, ég var heppin vegna þess að ég átti góða að sem voru alltaf til í að aðstoða og þá er ég ekki að tala um peningaaðstoð. Þetta tók tíma en það hafðist og ég sættist betur við orðinn hlut með hverju ári sem leið. Sársaukinn sem fylgdi niðurlægingunni var verstur og ég var sjálfri mér verst.

Þegar sonur minn svipti sig lífi var ég frosin úr kulda fyrstu sjö mánuðina, ófær um að hugsa heila hugsun eða að taka nokkrar ákvarðanir með viti á köflum, með brjóstsviða frá helvíti sem ekkert sló á, með svefnerfiðleika og tilheyrandi martraðir sem ég hræðist enn, hormónastarfsemi líkamans hrundi, hausinn á mér að brenna yfir með stöðugum höfuðverk sem fylgdi og á köflum langaði mig ekki til að lifa og hélt að ég væri að missa vitið. Ég vildi bara fá Lalla aftur. Í dag veit ég að þetta var allt eðlileg líðan í kjölfar áfallsins. Ég vissi það ekki þá.

Ég hef farið það langt niður að banka upp á hjá andskotanum sjálfum og athuga hvort hann getið ekki notast eitthvað við mig þessa gjörsamlega vonlausu og óhæfu manneskju, fundist ég einskis virði. Á sama tíma bað ég og bað til guðs á milli þess sem ég hundskammaði hann fyrir að gera það sem hann gerði. Ég bað fyrir drengjunum mínum og fólkinu mínu. Ég bað um kjark og styrk og ég skammaðist.

Í dag líður fjölda fólks nákvæmlega svona í kjölfar áfalls sem það hefur orðið fyrir. Það þarf ekki að missa barnið sitt eða annan nákominn aðstandanda. Það er svipt ærunni, lífsafkomunni, gleðinni og örygginu og það er ekki í lagi. Skilningur stjórnvalda á afleiðingum áfallanna á fólk andleg og líkamlega verður að aukast og opnast, afneitun á vandanum gerir ástandið bara verra. Það er ekki eins og við höfum gert gat á fötin okkar, það er komið sár á sálina og úr því blæðir stöðugt.

Ég þarf ekki að kvarta í dag en ég get ekki sætt mig við hvernig komið er fram við fólk í samfélagi okkar í dag. Ég sætti mig ekki við hvernig komið var fram við son minn eða dauða hans og ég kem aldrei til með að sætta mig við það. Ég mun læra að lifa með mínum áföllum, það er ekki hægt annað og ég er ekki ein um það og þó að sársaukinn mildist er hann áminning sem fylgir manni hvert sem maður fer eins og skugginn.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband