Færsluflokkur: Bloggar
27.8.2011 | 12:58
Það gerir þetta engin að gamni sínu.
Mig langar til að vekja athygli á Alþjóðadegi sjálfsvígsforvarna þann 10. september, með hugleiðingum mínum.
Lífshamingja og gleði, okkar bestu og dýrmætustu stundir með ástvinum fá hjartað okkar til að slá örar af gleði en það gerir hræðslan líka með sinni lamandi vantrú og bjargarleysi þegar ljóst er að dýrmætur einstaklingur nálægt okkur hefur af einhverjum völdum tapað lífsgleðinni, gert tilraun til eða tekið líf sitt. Sorgin er takmarkalaus, djúp og dimm og blákaldur veruleikinn með öllum sínum ósvöruðu spurningum. Þetta þekki ég eins og svo margir.
Við vonum alltaf það besta fyrir okkur sjálf og þá sem við elskum í hverju því sem við tökum okkur fyrir hendur. Við kveikjum líka von hjá öðrum sem þurfa á því að halda meðvitað eða ómeðvitað og það getur gert kraftaverk. Vonin um að allt fari vel.
Ef ég hef tapað lífsgleðinni, er búin að gefast upp á lífinu og farin að hugsa um að taka líf mitt. Þá eru allar líkur á að ég sé smá saman búin að vera að einangra mig á einhverjum tíma. Ég fer jafnvel að bíta af mér fólk og sýni því hlið á mér sem það ekki þekkir og geri það óttaslegið og fúlt. Ég gef þeim ekki færi á að ræða málin við mig lengur. Ég er búin að gefast upp á að tala um það sem plagar mig, það breytir engu og ég reyni að kyngja kvíðakökkinum sem hefur flutt lögheimili sitt í háls mér og brjósthol, útiloka gallbragðið í munninum sem stafar af áralöngum brjóstsviða og segi þeim bara að það sé allt í lagi". Þau eru alveg jafn bjargarlaus í þessari aðstöðu og ég.
Ég hef margreynt að brjótast út úr þeim vítahring sem lífsmynstur mitt er eins og svo margir nefna ástandið á mér" og klykkja jafnvel út með því að benda mér á að eymd sé valkostur". Ég hef sett mér markmið, fylgt áætlunum og prógrömmum en mér tekst ekki að vinna á boðefnavandanum í líkamanum sem keyrir mig á kaf aftur án þess að ég átti mig á því og allt í einu er ég komin á minn versta stað og skil ekki hvað gerðist.
Ég get verið gleði- og áhugalausari en hægt er að gera sér í hugalund og á bágt með að skilja hvernig fólkið mitt endist til að reyna að eiga við mig. Það hafa komið góðir tímar inn á milli frá því að þessi barátta hófst en nú eru þeir hættir að koma. Ég vil ekki valda sársauka en mín vanlíðan er þess eðlis að ég sé bara eina leið út. Ekki það að mig langi til að deyja, alls ekki. Líf mitt er bara svo tilgangslaust eins og það er og til svo mikils ama.
Þetta er engin skyndiákvörðun. Ég er búin að vera að berjast gegn þessari löngun oft áður. Það sem hefur haldið aftur af mér hingað til hefur verið tilhugsunin um hvaða áhrif þetta hefði á fjölskylduna mína og vinina. Ég hef leitað mér hjálpar hjá fagfólki aftur og aftur og fengið lyf og viðtöl sem mér finnst engin hjálp í til lengdar. Ég geng beint út í ömurleikann úr viðtölunum og ég á nóg af lyfjum heima til að slátra fíl. Eru þetta kannski einhver dulin skilaboð?
Ég hef lengi gengið á veggi og hreinlega gefist upp. Líður eins og úrhraki að ég passi hvergi inn í af því að ég er eins og ég er. Ég er veik í höfðinu, í huganum og það er lítið hægt að gera fyrir mig.
Við þurfum hjarta til að dæla blóðinu um líkamann og við þurfum hugann til að virka í lífinu. Ef hjartað bilar er hægt að skipta um það og á fólk með hjartasjúkdóma er litið allt öðrum augum en ef hugurinn bilar. Þá er fátt í stöðunni, læknavísindin hafa ekki ennþá klofið þann vanda að skipta um höfuð á fólki.
Ég hef heyrt svo ótal oft setningar eins og; hertu þig nú upp, vertu sterk, hreyfðu þig meira, þú hefur gott af því að koma og vera innan um fólk og veit að þetta er allt satt og rétt en ég hef ekki orku í neitt af þessu lengur og fæ kvíðakast við tilhugsunina eina. Ég hef verið litin hornauga og verið hædd, þetta þykir ekki fínt og grunnt er á fordómum.
Ég er ekki aumingi, sjálfselskur ræfill eða duglaus manneskja. Ég er hörkudugleg, var lífsglöð og mikil félagsvera þangað til eitthvað gerðist sem ég ekki réð við og fékk ekki skilning á sjálf eða frá samfélaginu og ég brotnaði.
Sem aðstandandi getur verið erfiðara en nokkuð annað að horfa upp á ástvin sinn veslast svona upp. Það dregst kannski ekki upp úr mér orð, vanlíðan mín er snertaleg og ekkert sem þú getur gert eða sagt til að hressa mig við eða hreyfa við mér hvort sem að þú ert að springa úr reiði eða ert yfirkomin af hræðslu yfir ástandinu á mér. Það kemst ekkert í gegn til mín. Mínar ranghugmyndir geta jafnvel verið orðnar þær að það sé öllum fyrir bestu að ég deyi, að ég sé að valda fólkinu mínu svo miklum erfiðleikum og sársauka en ég segi samt ekki neitt.
Ég veit alveg að það er ekkert til að skammast sín fyrir að líða illa og þjást andlega, við kynnumst því flest einhvern tíman á lífsleiðinni og ég veit líka að það sviptir sig engin lífi að gamni sínu.
En ég myndi skilja eftir mig bréf þar sem ég bæði þig um að fyrirgefa mér og bæði þig um að ásaka þig ekki fyrir það sem gerðist. Ég myndi vilja að þú vissir hve vænt mér þótti um þig, að þú varst mér dýrmætari en allt og fyrir þig var ég þakklát. Ég myndi biðja þig um að muna mig eins og þegar ég var upp á mitt besta, á okkar bestu stundum. Gleymdu hinu, það gerir þér ekkert gott, ég gat bara ekki meira.
Bloggar | Breytt 7.9.2011 kl. 21:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2010 | 15:05
Í skugga áfalla
Ég veit að margir eiga um sárt að binda og sjá jafnvel ekkert nema tilgangsleysið og svartnættið fram undan.
Við ykkur vil ég segja; Það birtir upp um síðir. Við eigum alltaf eitthvað til að þakka fyrir. Það er kannski ekki auðvelt að trúa því í dag en kannski á morgun.
Þú verður að trúa því, þín vegna. Við eigum bara eitt líf og þess verðum við að gæta.
Það er ekkert sem skiptir meira máli í lífinu en þú - þitt líf. Lífsviljinn er skærasta vopnið. Við megum ekki glata því eða sjálfvirðingunni.
Við þurfum að halda áfram. Það eru aðrir sem mega ekki við því að við gefumst upp.
Í þessu felst engin blekking þetta þýðir að við höldum í vonina. Þegar að við töpum voninni er stundum ekkert eftir nema bara tómarúm inni í okkur og óendanlega djúp sorg eða reiði, biturð og hatur.
Ég hef verið á báðum stöðum tilfinningarlega og má ég þá heldur biðja um sorgina og tómleikann þangað til hægt er að beisla neikvæðu orkuna skynsamlega eins og svo ótal margir hafa gert að undanförnu fyrir hagsmunum annarra með góðum árangri. Neikvæða orkan í sinni verstu mynd, sem svo erfitt getur verið að komast út úr er það mest eyðileggjandi afl sem til er fyrir mann sjálfan og þá sem eru í kring.
Ég átti von, kraft, kjark og tvo litla stráka þegar ég tapaði öllum mínum verandlegu eigum hér um árið og byrjaði upp á nýtt. Það þarf engin að halda að það hafi verið auðvelt eða létt en það hafðist, ég var heppin vegna þess að ég átti góða að sem voru alltaf til í að aðstoða og þá er ég ekki að tala um peningaaðstoð. Þetta tók tíma en það hafðist og ég sættist betur við orðinn hlut með hverju ári sem leið. Sársaukinn sem fylgdi niðurlægingunni var verstur og ég var sjálfri mér verst.
Þegar sonur minn svipti sig lífi var ég frosin úr kulda fyrstu sjö mánuðina, ófær um að hugsa heila hugsun eða að taka nokkrar ákvarðanir með viti á köflum, með brjóstsviða frá helvíti sem ekkert sló á, með svefnerfiðleika og tilheyrandi martraðir sem ég hræðist enn, hormónastarfsemi líkamans hrundi, hausinn á mér að brenna yfir með stöðugum höfuðverk sem fylgdi og á köflum langaði mig ekki til að lifa og hélt að ég væri að missa vitið. Ég vildi bara fá Lalla aftur. Í dag veit ég að þetta var allt eðlileg líðan í kjölfar áfallsins. Ég vissi það ekki þá.
Ég hef farið það langt niður að banka upp á hjá andskotanum sjálfum og athuga hvort hann getið ekki notast eitthvað við mig þessa gjörsamlega vonlausu og óhæfu manneskju, fundist ég einskis virði. Á sama tíma bað ég og bað til guðs á milli þess sem ég hundskammaði hann fyrir að gera það sem hann gerði. Ég bað fyrir drengjunum mínum og fólkinu mínu. Ég bað um kjark og styrk og ég skammaðist.
Í dag líður fjölda fólks nákvæmlega svona í kjölfar áfalls sem það hefur orðið fyrir. Það þarf ekki að missa barnið sitt eða annan nákominn aðstandanda. Það er svipt ærunni, lífsafkomunni, gleðinni og örygginu og það er ekki í lagi. Skilningur stjórnvalda á afleiðingum áfallanna á fólk andleg og líkamlega verður að aukast og opnast, afneitun á vandanum gerir ástandið bara verra. Það er ekki eins og við höfum gert gat á fötin okkar, það er komið sár á sálina og úr því blæðir stöðugt.
Ég þarf ekki að kvarta í dag en ég get ekki sætt mig við hvernig komið er fram við fólk í samfélagi okkar í dag. Ég sætti mig ekki við hvernig komið var fram við son minn eða dauða hans og ég kem aldrei til með að sætta mig við það. Ég mun læra að lifa með mínum áföllum, það er ekki hægt annað og ég er ekki ein um það og þó að sársaukinn mildist er hann áminning sem fylgir manni hvert sem maður fer eins og skugginn.
Bloggar | Breytt 27.8.2011 kl. 00:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.10.2009 | 19:11
Viltu bjóða mér í hjarta þitt.
Liðsmenn Jerico eru eins árs í dag og ég óska ykkur til hamingju með daginn.
Við þurfum öll á trú, von og kærleika að halda. Ég trúði því í hjarta mínu að starf Liðsmanna Jerico skipti máli, ég trúði því að hægt væri að ná fram breytingum í þjóðfélaginu varðandi viðhorf til eineltis - Ég trúði því að fólk vildi hleypa okkur inn í hjarta sitt.
Í dag er ég búin að sjá hvað er hægt að gera ef fólk hefur trúna.
Vonir í brjósti okkur lifna og deyja með öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur í lífinu. Vonin sem lifnaði í brjósti mér með lífi Liðsmanna Jerico lifnaði þegar önnur von dó. Von um að hægt væri að veita þolendum eineltisofbeldis og aðstandendum þeirra meiri hjálp, aukinn skilning, sanngjarnari meðferð og viðurkenningu á vandanum sem þeir eiga rétt á. Til að vinna að því að koma í veg fyrir að einelti fái að þrífast, efla forvarnirnar og til að hægt sé að virkja þá þjónustu betur sem í boði er hjá félagsþjónustu, heilbrigðis og menntamálastofnunum, upplýsa og fræða.
Einelti er ekki einkamál gerenda og þolenda. Við berum öll ábyrgð. Við þurfum að tala um hlutina og láta vita. Ég trúi á ykkur.
Með baráttu okkar, upplýsingum, fræðslu og leiðsögn er víða hafin löngu tímabær vinna í eineltismálum. Í ráðuneytum, bæjarfélögum, stofnunum og fyrirtækjum Það gengur bara allt svo hægt.
Það þarf stöðugt að vera að minna á tilganginn með vinnunni. Um að stuðla að forvörnum í eineltismálum fyrir framtíðina til að koma í veg fyrir brot á mannréttindum og bætt geðheilbrigði. Við eigum öll sama rétt á að líða vel og vera hamingjusöm eins og við erum.
Við eigum öll að geta verið örugg og geta treyst því að börnin okkar séu í öruggu umhverfi, líf okkar snýst um þá sem við elskum.
Það á ekki að vera þannig að þegar aðstandendur eineltisþola og fullorðið fólk leiti réttar síns að þá gangi það á veggi. Að þegar fólk sem er ráðþrota, að brotna undan álaginu sem fylgir sorginni, ráðaleysinu og höfnuninni og þarf virkilega á því að halda að heyra uppörvandi og styrkjandi orð þá sé því vísað eitthvað annað. Að fólk þurfi að komast að því að það er engin málsvari í öllu þjóðfélaginu sem tekur að sér eitt einstakt mál, merkt einelti eða eineltisofbeldi. Ekki barnaverndarsamtök, ekki Vinnueftirlitið - engin. Samt eru til lög og reglugerðir varðandi skóla og vinnustaði.
Það á ekki að vera þannig að eineltisofbeldismál falli hvergi undir embætti eða stofnanir.
Það eru skráð 38 sjálfsvíg á síðasta ári, að meðaltali falla 3-4 einstaklingar fyrir eigin hendi á mánuði. Það er umhugsunarvert og ég vildi svo gjarnan vita hversu margir þeirra glímdu við afleiðingar eineltis og létust vegna þeirra.
Það er hörkuvinna sem þarf að fara af stað strax þegar einelti uppgötvast. Í þá vinnu þarf dugnað og góða samvinnu allra einstaklinga sem að málinu koma. En tilfinningin sem fylgir því að ná að uppræta einelti er dásamleg. Hana þekki ég jafnvel og tilfinninguna þegar það tekst ekki. Það er mikið gleðiefni að fá fréttir og pósta frá starfsmönnum skóla og fyrirtækja sem eru að láta vita af eineltisforvarnarvinnu og uppstokkun sem er að fara í gang í eineltismálum og forvörnum. Þetta segir okkur að það er vitundarvakning í þjóðfélaginu og að það er fullt af fólki sem að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að snúa við blaðinu.
Það vill enginn vera bestur í eineltisfeluleik, verðlaunin eru ömurleg.
Mat á einelti sem upp kemur á ekki að vera geðþóttamat hverju sinni það á að fylgjast með því af alvöru hvort verið sé að fara eftir lögum, reglum og reglugerðum. Á meðan hlutirnir fá að vera svona af hálfu stjórnvalda og í samfélaginu óáreitt, þrífst víða eineltisofbeldi og virðingarleysi gagnvart þolendum.
Það vill engin að einelti þrífist hjá sér, á sínum stað og það vill engin láta minnast sín sem ábyrgðar- og getulauss stjórnanda í afneitun sem brást þegar á þurfti að halda. Hugrekki er að bregðast við og láta verkin tala.
Sársaukinn sem fylgir þolendum eineltis getur varað allt lífið og er gjörólíkur þeim sársauka sem fylgir því að detta og hrufla sig eða að fá marblett.
Við getum verið þakklát fyrir þá vakningu sem hefur orðið í samfélaginu á einu ári varðandi eineltismál.Við getum líka verið þakklát fyrir þá umfjöllun sem við fáum, þó að hún sé afskaplega lítil. Eineltismál hafa þótt óspennandi málaflokkur og áhuginn hefur verið mjög takmarkaður. Það hafa fáir viljað af okkur vita fyrr en á þurfa að halda.
En það góða er að þetta er að breytast. Það hefur stigið fram fólk og það er að stíga fram fólk sem getur unnið að breytingum og vill stuðla að breytingum.
Bloggar | Breytt 27.8.2011 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.6.2009 | 12:00
Í minningu fallinna eineltisþolenda.
Ég er lúmskari en nokkur trúir og veit hvernig ég næ bestum árangri hvar sem er, hvenær sem er, hvernig ég næri mig best.
Ég þarf alltaf meira og meira af sársauka í kring um mig, til að fylla mig af þessari dásamlegu tilfinningu sem fer um mig þegar ég sé sársaukann og heyri sársaukann í fórnarlömbunum mínum.
Ég veit ég á ekki að gera þetta en þetta gefur mér ótrúlegt vald yfir vinum mínum og fórnarlömbum.
Það er dásamlegt að kúga og ógna og þó svo að ég sé staðinn að verki þá skiptir það ekki svo miklu máli.
Ég þarf kannski að biðja fyrirgefningar og hlusta á tiltal en um leið og ég biðst fyrirgefningar sendi ég fórnarlambinu mínu svipinn sem það þekkir svo vel og brýt það enn betur niður svo fer ég út og held áfram.
Lífið er dásamlegt og stútfullt af fórnarlömbum.
Ég er eineltisgerandi, nærist á ofbeldi.
Í dag er nákvæmlega 1 ár síðan sonur minn dó, síðan baráttan hófst í nafni Jerico.
Mig langar til að segja ykkur frá því hvernig nafnið á Samtökum foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda, Liðsmenn Jerico er tilkomið.
Jerico var notendanafn Lárusar sonar míns á netinu.
Það síðasta sem hann hafði fyrir augunum áður en hann tók líf sitt þann 21. júní síðasta sumar var uppi á skjánum á tölvunni hans undir notandanafni hans, Jerico.
Ljót og niðurlægjandi svör fólks við spurningu sem hann setti inn á spjallsíðu.
Það síðasta sem við vitum er að hann setti inn ósk klukkan tæplega tvö um nóttina þar sem hann bað fólk að hætta að kommenta á stafsetninguna sína en gefa sér frekar ráð.
Svör fólksins til Jerico voru það sem blasti við mér daginn eftir atburðinn. Svör sem ég gleymi aldrei, tilfinning sem ég gleymi aldrei. Þetta var það síðasta sem Lárus sat við og las áður en hann tók líf sitt. Þetta hefur sært okkur meira en orð fá lýst.
Kaldhæðnin gat ekki verið meiri. Drengur sem þurfti að þola ofbeldi í sinni ljótu mynd í skóla, ofbeldi sem braut hans sjálfsmynd í mola og fylgdi honum eins og svartur skuggi allt hans líf og felldi hann að lokum.
Það sem gerðist svo í kjölfarið gaf mér styrk og það var að á þessari sömu spjallsíðu var opnuð síða þar sem fólk gat heiðrað og minnst Jerico.
Þangað inn fór ég oft á dag næstu daga og vikur til að sækja styrk því þar skrifaði fjöldinn allur af fólki þá mestu fegurð sem ég þurfti á að halda.
Í hans nafni starfa Liðsmenn Jerico, Samtök foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda.
Fyrir alla þá sem þurfa að þjást vegna eineltisofbeldis og skilningsleysis.
Með þær skelfilegu afleiðingar sem ég held að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir, hversu mikil heilsufarsleg áhrif það hefur í för með sér fyrir þá allt þeirra líf, eða fyrir tengslum eineltis og sjálfsvíga.
Hvernig afleiðingarnar leggjast á alla fjölskylduna.
Umræðan um afleiðingar eineltisofbeldis hefur opnast, fræðsla og upplýsingar hafa aukist - Fordómar eru á undanhaldi.
Netsamfélagið er órofa hluti af samfélaginu, við þurfum öll að gera okkur grein fyrir því að það er veruleiki Íslands og það er líka vegna þess sem við erum í þessari baráttu núna.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Fólk er farið að átta sig á að þolendur eineltisofbeldis eru ekki aumingjar heldur er verið að gera þá að aumingjum.
Kynnt var hugmynd 16.06.09 að sérsveit/fagteymi á fundi hjá menntamálaráðuneyti með ráðuneytum, stofnunum, samtökum og félögum allsstaðar að úr íslensku samfélagi.
Fagteymi sem verður að hafa fullt sjálfstæði í vinnubrögðum og með hvaða hætti það velur að vinna í málum enda sérhvert mál sérstakt og útheimtir þar af leiðandi mismunandi útfærslur. (Sjá nánar inni á jerico.is)
Ég vil sjá að í allri uppeldismenntun sé eineltisfræðsla í grunnnámi skylduáfangi.
Ég vil sjá að Barnaverndarnefndir um allt land fái verkfæri til að vinna með gerendur í eineltismálum og fjölskyldur þeirra, að Barnaverndarnefndir fái tilkynningar um gerendur og fjölskyldur þeirra til að vinna með.
Gerendurnir eru vandamálið og það þarf að hjálpa þeim að vinna á sínum vanda.
Þetta tel ég vera forvörn.
Fullorðnir þolendur eineltisofbeldis eiga sér engan málsvara. Það er enginn sem tekur að sér einstakt mál sem berst til þeirra stofnana sem fólki er þó bent á að snúa sér með úrlausn.
Það batnar ekki þegar þolandi telur í sig kjark til að tilkynna einelti sem hann verður fyrir og fær það svart á hvítu fyrir framan sig að úrlausnaraðilinn sem hann er sendur til kemur til með að taka líka að sér að verja gerandann.
Hvert er réttlætið þar? Hvar eru mannréttindin þá?
Er hægt að niðurlægja fólk eitthvað frekar? Já með því að sannfæra þolendurna um að þeir eigi ekki möguleika á að vinna málið til þess sé sönnunarbirgði þeirra of mikil.
Skiptu frekar um vinnustað eða láttu þetta yfir þig ganga.
Ég bara skil ekki hvernig fólk getur þagað yfir einelti sem það verður vitni að, verður fyrir sjálft eða börnin þeirra. Ég bara skil það ekki hvernig fólk getur haft það á samviskunni.
Talið, látið vita.
Einelti drepur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.11.2008 | 16:57
Ljós í myrkri.
Ljós í myrkri.
Mín leið til að umvefja ykkur sem þurfið á því að halda með ást og kærleik, skilningi og umburðarlyndi. Nær kemst ég ekki en ég verð að snerta við ykkur.
Ég veit að margir eiga um sárt að binda og sjá jafnvel ekkert nema tilgangsleysið og svartnættið fram undan.
Við ykkur vil ég segja; Það birtir alltaf upp um síðir. Við eigum alltaf eitthvað að þakka fyrir. Það er kannski ekki auðvelt að trúa því í dag en þú verður að trúa því, þín vegna.
Það er ekkert sem skiptir meira máli í lífinu en þú - þitt líf.
Þú átt bara eitt líf og þess skaltu gæta. Þegar okkur líður hvað verst og við sjáum engan tilgang með lífinu er gott að minna sig á það að þú átt fjölskyldu og vini sem elska þig og vilja ekki að neitt slæmt hendi þig. Alveg sama hversu illa þér líður núna og þér finnist allt lítils virði eða jafnvel ekki skipta neinu máli, það skiptir máli. Þín fjölskylda, þínir vinir, hafa áhyggjur af þér, hafa áhyggjur af því hvernig þér líður - þú skiptir fólk máli.
Jafnvel þó að allar leiðir virðist lokaðar, að maður geti talið sér trú um að búið sé að brjóta allar brýr að baki, engum þyki vænt um mann, að þú sért bara til ama og það létti bara á fólki að losna við þig, þá er alltaf ljós einhver staðar fram undan, það þarf bara að koma auga það.
Það er alveg sama hvað á gengur í lífinu við lærum af því öllu og styrkjumst, verðum skilningsríkari og reyndari auk þess að hafa meira að gefa öðrum, það er tilgangurinn.
Það er einhver tilgangur með öllu sem gerist í lífinu. Við sjáum það kannski ekki í dag en ef til vill á morgun eða hinn. Við lærum til að hjálpa öðrum. Til þess að þú getir hjálpað öðrum verður þú að lifa af núna. Ég bið þig um að þiggja alla þá hjálp sem þér býðst, ekki gefast upp. Ef þú ert í eða við svartnættisholið, komdu þér þá í burtu frá því strax, fáðu hjálp, lifðu.
Það er alveg sama hversu erfið okkar reynsla er, þín bíður eitthvað stórkostlegt.
Það kemur alltaf góður tími á móti slæmum tíma. Þessu verður þú að trúa.
Ég þekki það á eigin skinni að missa allt. Ég kynntist því fyrir 15 árum síðan. Fór í gegnum efnislegt og tilfinningalegt gjaldþrot. Skilnað, missti nánast allt sem ég átti nema syni mína tvo, fjölskylduna mína og skuldirnar.
Ég stóð uppi peningalaus, atvinnulaus, húsnæðislaus og bíllaus. Andlegt flak. Þá komst ég að því að það er erfiðara að fyrirgefa sjálfum sér fyrir sín mistök en fyrir aðra, sem mistök mín bitnuðu á að fyrirgefa mér.
Með mannorðið í hættu, þunglyndi, kvíða og óvissu í farteskinu tók við nýr kafli í lífi mínu og það birti upp. Það birtir alltaf upp.
Eftir á að hyggja þá sé ég hvað lífsviljinn skiptir miklu máli. Við megum ekki glata honum eða sjálfvirðingunni. Við þurfum að halda áfram. Það eru aðrir sem mega ekki við því að við gefumst upp.
Ef við gefumst upp skiljum við eftir okkur ólýsanlegan sársauka, sársauka sem er svo sár, sársauka sem verður sárari og sárari. ótal ósvaraðra spurninga, sjálfsásökun, sektarkennd og óendanlega mikilli sorg og söknuður.
Þau okkar sem hafa orðið fyrir efnislegu og/eða tilfinningalegu gjaldþroti og skakkaföllum á lífsleiðinni skiptast í tvo flokka; það eru þeir sem reyna að gera það besta úr því sem komið er, sættast og aðlagast breytingunni, byrja upp á nýtt.
Eða þeir sem festast í sárum biturleika og reiði út í allt og alla. Komast ekki út úr því liðna sem ekkert getur breytt nema við sjálf með því að halda áfram, taka okkur taki. Til þess þiggjum við öll þá hjálp sem býðst. Við verðum, af því að lífið heldur áfram með öllum sínum kostum og göllum.
Við þurfum að horfa á kostina, það sem hefur gefið lífinu gildi.
Í dag þakka ég fyrir að eiga son, maka og fjölskyldu sem ég elska út af lífinu og vini sem er mér ómetanlegt. Ég er á lífi og ég þakka fyrir það. Það hefði verið svo auðvelt fyrir mig þegar eldri sonur minn tók líf sitt að leggjast í kör og sjálfsvorkunn. Svo mikill er sársaukinn við að missa þann sem maður elskar. En ég ætla að berjast, ég berst fyrir auknum skilningi á þeim skelfilega sjúkdómi sem þunglyndi er og afleiðingum þess.
Ég bið til guðs af öllu mínu hjarta og allri minni sál að ljós lífsins nái að skína sem skærast inn í hjörtu allra og að umhyggja og kærleikur umvefji hverja þá sál sem kvelst einmana í einangrun sinni.
Það er til hjálp, taktu við henni, þiggðu hana og láttu ljós þitt skína. Berstu með mér fyrir betra lífi og hjálpaðu öðrum sem eiga bágt.
Ég veit að þú getur það. Það eru bjartari tímar framundan hjá okkur öllum, við verðum bara að vera þolinmóð og finna út með sjálfum okkar hvert okkar starf er með reynslunni sem við höfum öðlast og öllu því sem við höfum upplifað.
Við ykkur sem eruð í sömu sorglegu sporum og ég og mín fjölskylda. Ég finn svo til með ykkur og veit hversu erfitt þið eigið. Ekki tapa trúnni á lífið. Það koma aftur góðir tímar hjá okkur. Allar góðar minningar og hugsanir er ekki hægt að taka frá okkur, njótum þeirra.
Kveikjum á kertum á hverjum degi og minnumst látinna ástvina í bæn um að nú líði þeim betur, að þeir séu lausir við það sem þá þjakaði og hrjáði og um leið skulum við þakka fyrir þá og það sem við eigum. Það hjálpar okkur að lifa af.
Þið eruð öll í mínum bænum, þið skiptið mig máli.
Liðsmaður Jerico
Ingibjörg Helga Baldursdóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.9.2008 | 14:38
Ákall til þjóðarinnar.
Þann 21. júní síðast liðinn gafst sonur okkar, Lárus Stefán Þráinsson upp á lífinu, brotinn eftir áralangar misþyrmingar eineltis. Hann var einungis 21 árs gamall. Við höfum nú hrundið á stað þjóðarátaki gegn einelti með því að stofna samtök foreldra eineltisbarna og uppkominna þolenda.
Í kjölfar dauða Lárusar hefur orðið mikil umræða um einelti í fjölmiðlum og sem náð hefur að fanga athygli fólks um allt land. Til okkar hefur leitað mikill fjöldi fólks með svipaða sögu að segja og við. Þetta fólk á ýmist börn sem glíma við þetta þjóðarmein eða það hefur sjálft farið illa út úr einelti á yngri árum og oftast ekki náð að vinna sig út úr því. Við finnum fyrir miklum meðbyr með stofnun samtakanna enda virðist þörfin vera mikil fyrir þolendur á öllum aldri sem og aðstandendur. Það er eins og fólk sé betur að uppgötva hvað einelti er í raun alvarlegt enda markar einelti fólk til lífstíðar og er oft orsök heilsufarslegra vandamála í mörg ár eftir að eineltinu líkur.
Töluvert hefur áunnist í baráttunni gegn einelti á undanförnum árum en fyrst og fremst hefur verið einblínt á forvarnir en lítið unnið gegn þeim skelfilegu afleiðingum sem einelti veldur þolendum. Einelti er enn allt of algengt og margt bendir til að það sé að aukast og harðna. Þessu til sönnunar má benda á að farsímar og tölvur skapað alveg nýjan vettvang fyrir einelti.
Það er algjörlega óásættanlegt að fólk þurfi að upplifa svo mikla uppgjöf barna sinna á samfélaginu vegna áralangra byrða eineltis og félagslegs vanmáttar eða einangrunar. Því miður eru þeir margir þolendurnir sem taka það sorglega skref frá þjáningu sinni sem sonur okkar tók. Flestir þolendur lifa þó eineltið af en líf þeirra verður aldrei samt á eftir. Flestir glíma við þunglyndi, skömm og félagslegt óöryggi í mörg ár og margir jafna sig aldrei; líf þeirra er markað til frambúðar. Því miður fer þeim þolendum fjölgandi sem kjósa að deyfa sársauka sinn í vímuefnum og eru þeir auðveld bráð fíkniefna. Þegar rætt er um forvarnir í vímuvörnum þá finnst okkur oft skorta skilning á því að vímuefnanotkun getur verið afleiðing annarra vandamála en ekki alltaf orsök þeirra. Þegar við förum að nálgast vímuefnavandann sem hugsanlega afleiðingu vandamála er meiri líkur á því að við áttum okkur betur á orsökunum þess að börnin okkar lenda í klóm vímuefna.
Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þolendur eineltis, og þeirrar útskúfunar sem slíku fylgir, bera ekki vandamál sín á borð. Þetta er þeirra skömm og þeirra leyndamál sem þeir tala ekki um. Þeir trúa því oftast sjálfir að þeir séu vonlausir og þeim finnst þeir hafa brugðist, brugðist foreldrum og fjölskyldu sinni með því að vera svona. Öll börn þrá að foreldrar þeirra séu stoltir af þeim og hrósi þeim, því bregst barnið við með afneitun þegar grunur vaknar um einelti. Því síður vill barnið að brugðist verði við vandamálinu enda vill það ekki að vonleysi þess fái meiri athygli en þegar er orðið. Fyrstu viðbrögð foreldrar eru oft líka afneitun enda trúa þeir ekki að þeirra barn hafi eitthvað til þess að bera að vera lagt í einelti. Því miður eru síðan viðbrögð foreldra, þegar raunveruleikinn blasir við, mikil sorg, sjálfsásökun, skömm og vanmáttur. Það sem síðan gerir málið jafn vandasamt og erfitt viðureignar er mikil afneitun foreldra gerandans. Barnið mitt tekur ekki þátt í einelti!
Einelti gerir ekki manna mun, það spyr ekki um stétt eða stöðu; það getur hitt okkur öll. Það er þjóðarmein sem kostar samfélagið gríðarlegar upphæðir á ári hverju í heilbrigðiskerfinu. Við getum breytt þessu til betri vegar en það þarf að eyða fordómum með því að draga vandamálið fram í dagsljósið og fræða fólk um meinið. Hvað veldur því að börnin okkar verða fyrir einelti? Er það félagsleg minnimáttarkennd sem veldur kvíða og þunglyndi barna okkar? Hvað veldur því að börnin okkar falla fyrir eigin hendi eða krumlu vímuefna?
Það eina sem dugar í baráttunni við einelti og afleiðingar þess er að axla öll ábyrgð á vandanum í þjóðfélaginu og það gerum við með því að búa börnunum okkar betra líf en við gerum í dag.
Það er einlæg ósk okkar að þú sýnir vandanum skilning og lýsir yfir stuðningi við Þjóðarátaki gegn einelti með því valdi, þeirri þekkingu og þeim ráðum sem þú hefur og leggir hönd á plóg við að bjarga geðheilbrigði og lífi fólks sem þarf á hjálp að halda.
Einelti er ekki einungis mál þolandans og gerandans, heldur okkar allra.
Kveðja.
Ingibjörg Helga Baldursdóttir
Þráinn Lárusson
Bloggar | Breytt 27.8.2011 kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.9.2008 | 19:46
Samið til minningar um Lárus Stefán Þráinsson.
Frumflutningur á jarðarfaradag Lárusar.
SONUR
Dimm var nótt og dökk voru ský
og dagur sem aldrei rann
nú er sálin þín flogin til himna farin
"ég sorg minni lýsa ei kann."
Ég sé þig sonur í anda
standa mér enn við hlið
þú varst svo glaðvær og sterkur
er gleðin sér lék okkur við.
Hvort meira er á mig lagt
en aðra dauðlega menn
er svipur þinn á mig sækir
ég spyr þig guð... aftur og enn.
Ég leita svara... í orðvana spurn
sonur minn elsku sonur af hverju þú.
því það var ég sem hefði átti að ganga á undan þér
yfir þessa brú.
Ég bið að ljósið þér áfram lýsi
svo leiðin verði vís
þar sem nótt er ei nein
þar sem nýr dagur rís
þar sem sál þín fær frelsi og frið
í paradís
Lag og texti: Magnús Þór Sigmundsson.
Bloggar | Breytt 6.9.2008 kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)